Kennsla í íslensku sem öðru tungumáli

Í grunnskólalögum segir að nemendur með annað móðurmál en íslensku eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Þegar nemandi hefur nám við skólann fer fram móttökuviðtal með foreldrum/forráðamönnum. Skólastjórnandi, umsjónarkennari og deildarstjóri stoðþjónustu sitja viðtalið ásamt túlki. Í kjölfar þess er þörf fyrir kennslu í íslensku sem öðru tungumáli metin.

Markmið með kennslunni er að nemendur verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Að þeir verði færir um að skilja og nota íslenskt mál og geti tekið fullan þátt í skóla- og frístundastarfi með jafnöldrum sínum.

Nemendur fylgja hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla í íslensku sem öðru tungumáli. Viðmiðin skiptast upp í fjögur þrep og lýsa stigvaxandi hæfni nemanda en taka ekki mið af aldri þó ætla megi að yngri börn fylgi viðmiðum í skemmri tíma en þau eldri. Eftir það fylgja nemendur aldurstengdum viðmiðum aðalnámskrár í íslensku.

Jafnhliða kennslu í íslensku sem öðru tungumáli eru nemendur og foreldrar/forráðamenn hvattir til að viðhalda móðurmálinu með sem fjölbreyttustum hætti. Þegar nemandi hefur stundað nám í skólanum í u.þ.b. sex til átta vikur er tekið stöðumat sem kannar almenna þekkingu og leikni nemanda ásamt stöðu í móðurmálinu. Á þeim grunni er nám hans og kennsla byggð upp og námsáætlanir gerðar. 


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is