Kennsluúrræðið Björg

Við höfum verið að þróa undanfarin ár kennsluúrræði sem við köllum Björgina. Markmið kennsluúrræðisins er að vinna faglega að því að efla og byggja upp færni nemenda til að geta verið sem mest í almennum bekk. Úrræðið kemur til þegar aðrar lausnir í skóla hafa ekki borið árangur eða þegar sérfræðingar í stoðkerfi skólans meta það svo að þar sé hagsmunum nemandans best borgið. Úrræðið er bæði skammtíma- og/eða langtímalausn. Þar er unnið með námsefni og einnig félagsfærni eftir því sem við á. Teymi er stofnað utan um hvern nemanda sem fundar reglulega um málefni hans. 

Ákvörðun um inntöku

  1. Umsjónarkennari fyllir út umsókn ásamt gátlista þar sem fram kemur hvað gert hefur verið í máli nemandans. Haft er samráð við foreldra.
  2. Lausnateymi starfar í umboði nemendaverndarráðs. Það leggur faglegt mat á umsóknir, tekur ákvörðun um inntöku eða leggur til aðrar aðgerðir í máli nemandans. Í lausnateyminu eru; teymisstjóri SMT, deildarstjórar allra stiga og námsráðgjafi.
  3. Þegar inntaka hefur verið samþykkt er gerð áætlun með markmiðum og skipulagi, stundatafla er útbúin og ábyrgðaraðilar skilgreindir.
  4. Umsjónarkennari/fagkennari skipuleggur nám nemanda í kennsluúrræðinu og ber ábyrgð á námsefni.
  5. Miðað er við að fundir séu haldnir með umsjónarkennara og foreldrum vikulega.

Úthlutun tíma

Nemendur geta verið í kennsluúrræðinu fyrirfram ákveðinn tíma í einu:
  • Eina til tvær kennslustundir á dag til að byggja upp úthald, til hvíldar frá stórum bekk og/eða til að ná ákveðnum markmiðum.-
  • Á meðan bekkurinn er í ákveðnum námsgreinum.
  • Allan daginn yfir ákveðið tímabil.
Reglulega er lagt mat á árangur og ákvörðun tekin um hvort nemandinn sé áfram í úrræði.

Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is