Eineltisáætlun Hvaleyrarskóla

Í Hvaleyrarskóla komum við fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur

Starf skólans tekur mið af agakerfinu SMT (School management training) og mikil áhersla er lögð á Kurteisi, Ábyrgð og Samvinnu. Nemendur fara eftir fyrirmælum, nota falleg orð í samskiptum og sýna öðrum tillitsemi, svo dæmi séu tekin úr reglutöflu skólans. Við höfum einnig hafið innleiðingu á Olweusaráætluninni gegn einelti og mun eineltisáætlun skólans okkar því taka nokkrum breytingum á næstunni árum.

Það er markmið Hvaleyrarskóla að halda uppi  virku forvarnarstarfi gegn einelti.

  • Öflug og virk samvinna er innan skólasamfélagsins, þar sem foreldrar og starfsmenn starfa saman að velferð nemenda með ýmsu móti.
  • Eineltisteymi skólans hittist að lágmarki tvisvar í mánuði til að fjalla um eineltismál og finna viðeigandi úrræði.
  • Á hverri önn fer eineltisteymið inn í alla bekki, kynnir eineltiáætlunina, starf eineltisteymisins og stefnu skólans í eineltismálum. Nemendur eru upplýstir um hvert þeir geta leitað eftir aðstoð.
  • Lögð er fyrir tengslakönnun í öllum bekkjum á hverju hausti og könnun um líðan á hverju vori.
  • Fræðsluefni, fyrirlestrar og myndbönd um afleiðingar eineltis er liður í lífsleiknikennslu sem er skyldufag á stundatöflu í 5.-10. bekk .

Sumt er bannað í skólanum, oftast vegna þess að lög kveða á um það.

Dæmi um slíkt er:

  • Áfengisneysla
  • Einelti
  • Kynjamisrétti
  • Kynþáttafordómar
  • Ofbeldi
  • Ógnandi framkoma
  • Reykingar
  • Sóðaskapur
  • Skemmdarverk
  • Skróp
  • Þjófnaður 

Rjúfum þögnina og stöndum saman í því að vinna bug á einelti

Stefna skólans miðar að því að eyða skilyrðum sem gætu skapað einelti. Ef við vitum að einhver er lagður í einelti eigum við að láta umsjónarkennara vita eða aðra starfsmenn skólans. Einnig eigum við að segja frá því heima.  Við hvetjum  alla til að láta vita ef þeir eru lagðir í einelti eða verða vitni að einelti. Talið og látið vita í skólanum og heima.

Einelti er áreiti af því tagi að ofbeldi beinist að einni manneskju í lengri eða skemmri tíma. Orðið einelti er yfirleitt notað um endurtekið atferli. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og finnur til varnarleysis.

Einelti birtist í mörgum myndum og það getur t.d. verið:

Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar eða skemmdarverk.

Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni.

Skriflegt/rafrænt: tölvuskeyti, smá skilaboð, krot, bréfasendingar.

Óyrt: bendingar, augngotur, háðsglott,merkjasendingar, niðrandi tákn.

Óbeint: baktal, útskúfun, eða útilokun úr félagahóp.

Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær skemmdar.

Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Einelti gerist oftast þar sem enginn sér og getur því farið framhjá þeim fullorðnu ef enginn segir frá. Sá sem er lagður í einelti segir því miður sjaldnast frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af eða kennir sjálfum sér jafnvel um.     

Einelti gerir ekki mannamun. Allir geta orðið fyrir því og áríðandi er að allir þekki einkenni eineltis.

Hugsanlegar vísbendingar um að barn sé lagt í einelti

Tilfinningalegar

  • Breytingar á skapi.
  • Tíður grátur, viðkvæmni.
  • Svefntruflanir, fær martraðir.
  • Breyttar matarvenjur, lystarleysi.
  • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
  • Depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir.

Líkamlegar

  • Líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur, sérstaklega á morgnana.
  • Barnið verður niðurdregið eða órólegt á sunnudagskvöldum eða síðasta kvöldið í skólaleyfi.
  • Kvíðaeinkenni t.d. nagar neglur, stamar, kækir ýmis konar.
  • Rifin föt og/eða skemmdar eigur.
  • Líkamlegir áverkar s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt.

Félagslegar

  • Barnið virðist einangrað og einmana.
  • Barnið fer ekki í og fær ekki heimsóknir.
  • Barnið á fáa eða engi vini og vill ekki taka þátt í félagsstörfum.

Hegðun

  • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
  • Barnið neitar að segja frá hvað amar að því
  • Árásargirni og erfið hegðun

Í skóla

  • Barnið hræðist að fara eitt í skóla og úr skóla, biður um fylgd eða fer aðra leið
  • Leggur fyrr af stað í skólann en venjulega eða fer seinna af stað
  • Byrjar að skrópa
  • Barnið mætir iðulega of seint
  • Barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
  • Barnið hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
  • Einangrar sig frá skólafélögum

Á heimili

  • Barnið neitar að fara í skólann
  • Einangrar sig frá öðrum í fjölskyldunni
  • Biður um auka vasapening
  • Týnir peningum og/eða öðrum eigum
  • Neitar að leika sér úti eftir skóla
  • Barnið byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
  • Reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra

Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einhver ofangreindra einkenna eða önnur sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið. Allir sem hafa vitneskju um hvers konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi meðal nemenda ber að tilkynna það. Það er siðferðisleg skylda okkar allra.

Hvað geta foreldrar gert þegar barnið þeirra er þolandi:

  • Hlustað vel á barnið
  • Brugðist við vanda barnsins með skilningi, þolinmæði og umhyggju
  • Látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu
  • Haft samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa, stjórnendur skólans.

Hvað geta foreldrar gert þegar þeirra barn er gerandi?

  • Haft samband við skólann en þar er hægt að setja í gang viðeigandi aðgerðir.
  • Reiði og skammir duga skammt.  Árangursríkara er að setjast niður og ræða málin.  Skýra þarf út fyrir barninu að það er alveg ólíðandi að særa aðra, bæði líkamlega og andlega.
  • Gefið skýr skilaboð um að einelti sé alvarlegt mál og barnið eigi að hætta því.
  • Gott er að fá barnið til að setja sig í spor þolenda og ímynda sér hvernig þeim líður því þannig eflum við samkennd barnsins með öðrum.
  • Skoðað eigin hegðun og hegðun annarra í fjölskyldunni.
  • Fylgst vel með hvernig barnið ver frítíma sínum og með hverjum.

Það er mikilvægt að barnið viti að foreldrarnir eru í sambandi við kennarann og fylgjast með framvindu málsins. Ef vel gengur má ekki gleyma að hrósa barninu.

Ferillýsing í eineltismálum

Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum.
Starfsfólk skólans berst gegn því með öllum tiltækum ráðum.  Til þess að árangur náist er nauðsynlegt að góð samvinna sé  á milli allra sem hlut eiga að máli.  Starfsfólk skólans, foreldrar og nemendur þurfa að standa þétt saman um að uppræta einelti. Mikilvægt þykir að allir þeir sem vitneskju hafa um eineltismál  tilkynni það til skólans svo hægt sé að vinna markvisst að því að stoppa eineltið.

Ef grunur vaknar um einelti skal fylgja eftirfarandi ferli:

Smellið hér

Það sem skólinn gerir:

Umsjónarkennari ásamt eineltisteymi ber ábyrgð á að eineltismálum sé fylgt eftir. Ef grunur leikur á eða staðfesting liggur fyrir að einelti eigi sér stað er það skýr stefna að tekið sé á málinu strax. 

Öll eineltismál, grun eða staðfestingu, skal skrá á sérstakt eyðublað. Umsjónarkennarinn ber ábyrgð á skráningu og lætur afrit til námsráðgjafa sem heldur utan um allar skráningar. Skráningin er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum.

Æskilegt er að vitneskja um einelti berist fyrst til umsjónarkennara. Einnig er hægt að hafa samband við eineltisteymi skólans eða stjórnendur. Eineltismál eru mismunandi og fer vinna hvers máls eftir eðli þess.

 1. Grunur um einelti

Viðbrögð:

  • fylgjast betur með nemanda í kennslustundum og frímínútum
  • spyrjast fyrir meðal samstarfsfólks og nemenda. Biðja ákveðna aðila, t.d. aðra kennara eða skólaliða um að fylgjast með nemandanum
  • biðja nemendur um að skrifa hvað þeim finnist um líðan og bekkjaranda
  • ræða við valda nemendur
  • blanda saman viðtali og skriflegu verkefni nemenda
  • gera félagslega tengslakönnun í bekknum
  • hafa samráð og leita upplýsinga hjá foreldrum.

2. Meðferð eineltismála í Hvaleyrarskóla

Einelti er bannað. Í öllum tilvikum eru gerendum gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið og að skólinn muni með öllum ráðum tryggja að eineltinu ljúki. Þegar nægar upplýsingar eru fyrir hendi þarf að ákveða hvernig á að vinna með sérhvert mál.

Dæmi um viðbrögð:

  • skráning/tilkynning - eyðublað
  • samstarf við foreldra um meðferð málsins
  • einstaklingsbundin viðtöl við þolendur og gerendur
  • vernd gegn frekara áreiti
  • eftirfylgni
  • ákveðniþjálfun fyrir þolendur eineltis með sjálfstyrkingu
  • bekkjarvinna
  • hópefli
  • upplýsa skólasamfélagið.

3. Einelti heldur áfram

Ef aðgerðir bera ekki árangur þarf  eineltisteymið að fylgja málinu frekar eftir.

Frekari viðbrögð:

  • efla samvinnu og samráð við foreldra þolenda og gerenda
  • meira eftirlit, viðurlög
  • vísa máli til nemendaverndarráðs
  • brjóta upp gerendahóp
  • einstaklingsmiðaða atferlismótun
  • ráðgjöf hjá sálfræðingi/öðrum sérfræðingum
  • tilkynningu til fjölskyldu- og heilbrigðissviðs
  • tilkynningu til lögreglu.

Netnotkun - gaman og/eða alvara

Við viljum leggja mikla áherslu á að foreldrar fylgist með hvað börnin þeirra aðhafast á netinu.  Borið hefur á að börn eru að leggja önnur börn í einelti á bloggsíðum sem þau eru aðilar að ásamt fleiri börnum og viljum við hvetja ykkur til að setjast niður með börnum ykkar og ræða um þess konar hluti. Það má t.d. setjast niður saman og lesa síðuna um einelti á heimasíðu skólans, þar sem rætt er um einelti á netinu.

Einnig er mikilvægt að þið fáið hjá börnum ykkar slóðirnar að síðunum þeirra, svo að þið vitið hvað þau eru að setja inn á netið, því mörg hver átta sig ekki á því að þessar síður eru opnar fyrir heiminn að sjá.  Þau eru stundum að setja inn heimilisfang, persónulega hluti, símanúmer og fleira sem ókunnugir eiga ekkert erindi að sjá.

Gott er einnig í þessu samhengi að skoða síðuna: http://www.saft.is/, sem er heimasíða samtaka foreldra um ábyrga tölvunotkun.
 

EF GRUNUR VAKNAR UM EINELTI SKAL FYLGJA ÞESSU FERLI EF ÞÚ SÉRÐ EÐA HEYRIR AРAÐRIR ERU AÐ STRÍÐA EÐA MEIÐA TILKYNNING VEGNA GRUNS UM EINELTI

 


 Olweusaráætlunin gegn einelti  Heimasíða SAFT

Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is