Bjarg
Í Hvaleyrarskóla er starfrækt móttökudeild fyrir nemendur í leit að alþjóðlegri vernd. Deildin sem hlaut nafnið Bjarg var stofnuð á vordögum 2017.
Markmikið með deildinni er að taka vel á móti börnum sem koma úr mjög erfiðum aðstæðum og hafa sum hver verið á flótta allt sitt líf. Skólaganga þeirra er oft mjög brotin og mörg hafa ekki verið í skóla lengi. Lögð er áhersla á að hjálpa börnunum að aðlagast íslensku skólakerfi hægt en örugglega þannig að skólaganga þeirra verði sem farsælust.
Þær námsgreinar sem lögð er aðal áhersla á eru íslenska, stærðfræði, enska, lífsleikni, íþróttir og list-og verkgreinar.
Lögð er áhersla á að styðja við foreldra nemendanna og aðstoða þá við að setja sig inn í íslenskt skólakerfi. Foreldrar eru hvattir til að koma í skólann og fylgjast með börnum sínum í leik og starfi.
Nemendur eiga sína heimabekki og fara með jafnöldrum í skólaíþróttir, list- og verkgreinar. Þannig er stuðlað að því að þau einangrist ekki í Bjargi heldur eignist vini og læri smám saman að vera nemendur í íslenskum skóla. Með þeim hætti er unnið í anda skóla án aðgreiningar því stefnan er að nemendurnir fari meira inn í bekki eftir því sem kjarkur og geta eykst.