Covid-19: Spurt og svarað
Spurt og svarað - Please use google translate for English
Margar spurningar hafa komið fram um þá sem eru í sóttkví og frá þeim sem eru í sóttkví og höfum við fengið svör við þeim frá Landlæknisembættinu.
Spurning 1: Þar sem ljóst er að náið samneyti er í fjölskyldum eiga þá fjölskyldur nema í sóttkví einnig að vera í sóttkví í þennan tilgreinda tíma?
Svar: Ef viðkomandi nemandi eða starfsmaður er ekki með einkenni en þarf að vera í sóttkví þurfa fjölskyldumeðlimir ekki að vera í sóttkví nema þeir hafi sjálfir umgengist smitaðan einstakling. Mikilvægt er þó að huga vel að sóttvörnum á heimilinu og minnka náin samskipti eins og kostur er. Sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga í sóttkví. Ef einstaklingur sem hefur verið útsettur fyrir smiti fær einkenni á meðan á sóttkví stendur er brýnt að viðkomandi hafi samband við sína heilsugæslustöð eða vaktsíma 1700 og fái ráðgjöf.
Spurning 2: Ef fjölskyldumeðlimur er kennari í skóla eða starfar á fjölmennum vinnustað í nánu samneyti við aðra á sá hinn sami að mæta til vinnu?
Svar: Ef einhver í fjölskyldu kennara er í sóttkví, en ekki með einkenni, getur viðkomandi kennari haldið áfram sínum störfum. Ef sá sem er í sóttkví fær einkenni fer hann í einangrun og eiga aðrir sem hafa verið á heimilinu að fara í sóttkví.
Spurning3: Eru kvef, hósti, hálsbólga, hausverkur og slappleiki (þetta íslenska kvef) án hita og beinverkja tilefni til þess að nemi/kennari í sóttkví fari í sýnatöku fyrir COVID-19?
Svar: Já, þegar vitað er um útsetningu fyrir kórónaveirusmiti eru öll öndunarfæraeinkenni grunsamleg og kalla á sóttkví annarra á heimilinu.
Spurning 4: Eiga systkini nema í sóttkví að sækja áfram sína skóla?
Svar: Á meðan sá sem er í sóttkví hefur engin einkenni er öðru heimilisfólki sem ekki hefur sjálft umgengist einstaklinga með COVID-19 sjúkdóm óhætt að sækja sinn skóla/vinnu. Mikilvægt er þó að huga að sóttvörnum, sýna varkárni og ef grunur vaknar um einkenni hjá þeim sem er í sóttkví skal leita ráðgjafar í síma 1700 eða á heilsugæslu.