Markviss málörvun

Markviss málörvun hefur verið kennd í Hvaleyrarskóla frá upphafi skólans. Markviss málörvun er kennd í öllum árgöngum skólans. 

Meginmarkmið

Að nemendur:

Eignist sinn samastað í tungunni með því að læra markvisst talað mál og hlustun.

Undirmarkmið

Að nemendur:

  • nái góðu valdi á töluðu máli, framsögn og samræðulist
  • geti gert skipulega grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum
  • geti auðveldlega tekið virkan þátt í félagslegum samskiptum
  • kunni að hlusta og skoða með athygli á gagnrýninn hátt

Leiðir

Að nemendur læri að:

  • segja skipulega frá
  • mynda sér skoðanir, tjá þær og rökstyðja
  • koma fram með eigin tilgátur
  • tjá tilfinningar sínar í orðum
  • taka virkan þátt í umræðum af ýmsu tagi og virða þær reglur sem gilda í umræðum og samræðum
  • nota ræðupúlt

Áhersla er lögð á framsögn og skýran framburð. Nemendur eru prófaðir í töluðu máli (s.s. framsögn, frásögn, umræðum og hlustun) og fá einkunn fyrir.

Samverur

Eitt af því sem styður kennslu í Markvissri málörvun í Hvaleyrarskóla eru samverur nemenda. Þær eru haldnar einu sinni í viku hjá hverri deild. Í yngstu- og miðdeild sér hver bekkur um samveru einu sinni á hvorri önn. Samveran hefst á því að kveikt er á þremur kertum sem hvert um sig tákna eitt af yfirheitunum okkar.

Umsjónarkennarar sjá um skipulag samverunnar en nemendur sjá sjálfir um að kynna atriðin. Foreldrum er boðið á samveru sinna barna og er óhætt að segja að þær hafi verið afar vel sóttar. Atriði nemenda hafa verið fjölbreytt og hefur stækkandi búningasafn skólans átt sinn þátt í því. Æskilegt er að tengja atriðin á einhvern hátt námsefninu en gefa nemendum á sama tíma kost á að sýna á sér nýjar hliðar og skemmta sér. Samverurnar þjálfa nemendur í framkomu, framsögn og síðast en ekki síst í því að vera góðir áheyrendur og sýna atriðum annarra virðingu.

Samverur í unglingadeild hafa verið í þróun. Rithöfundar hafa komið í heimsókn og lesið upp úr sínum verkum. Einnig hafa verið haldin fræðsluerindi meðal annars um einelti. Nemendur hafa sungið og leikið á hljóðfæri. Haldnar hafa verið kappræður, spurningakeppni, borgarafundir og fleira. Haldið verður áfram að þróa samverurnar í elstu deild þannig að nemendur fái tækifæri til þess að koma fram og sýna fjölbreytta hæfileika sína, iðka lýðræði og tjá skoðanir sínar. Deildarstjórar hafa yfirumsjón með samverum og sjá þeir um skipulag í samvinnu við umsjónarkennara.


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is