SMT - jákvæð skólafærni
Hvaleyrarskóli er SMT skóli. Í því felst að við leggjum áherslu á að styrkja jákvæða hegðun nemenda, efla og bæta samskipti innan skólans.
Markmið SMT-skólafærni, sem er hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Positive Behavior Support/PBS, er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá.
Skólaárið 2006-2007 hófst undirbúningur að innleiðingu agakerfisins SMT en innleiðingin tekur í heild fjögur ár. Í skólanum starfar teymi sem hefur það hlutverk að fylgja innleiðingunni eftir og vera starfsfólki til leiðbeiningar. Allt starfsfólk fær sérstaka SMT möppu að hausti sem inniheldur reglutöflu, skipulag og aðrar upplýsingar, auk þess sem upplýsingar eru aðgengilegar á innra neti skólans. Þar má einnig finna ýmis skráningablöð sem nýtast vel við bekkjarstjórnun. Í september 2011 fékk Hvaleyrarskóli afhentan SMT fánann til merkis um vel heppnaða innleiðingu á SMT. Þar með er skólinn okkar orðinn sjálfstæður SMT skóli.
Skólahúsnæðinu er skipt upp í svæði og gilda ákveðnar reglur á hverju svæði fyrir sig. Reglur eru kenndar eftir ákveðinni áætlun og gerðar sýnilegar á þeim svæðum sem þær gilda um. Ein regla er tekin fyrir í hverri viku (sjá áætlun í SMT möppu og á innra neti) og fær starfsfólk senda áminningu um reglu næstu viku í vikupistli á föstudögum. Allir eru því að vinna með sama svæðið samtímis. Nemendum er umbunað fyrir ,,rétta” hegðun með svokölluðum hvalamiðum en þá má nálgast hjá ritara. Æskilegt er að leggja sérstaka áherslu á að nemendur fái hvalamiða fyrir að fara eftir þeirri reglu sem verið er að vinna með þá vikuna. Hvalamiðarnir gefa nemendum stig sem þeir safna saman þar til stigafjöldi hefur náð fjórföldum fjölda nemenda í bekknum. Þá er haldin svokölluð hvalaveisla og nemendum er umbunað á einhvern hátt. Mögulegt er að veita nemendum einstaklingshval sem gefur eitt stig en einnig er mögulegt að umbuna heilum bekk með bekkjarhval sem gefur fjögur stig. Einstaklingshvali fara nemendur með heim og sýna foreldrum. Næsta dag koma þeir með hann aftur í skólann og afhenda umsjónarkenna sem sér um að hengja hann upp á ákveðinn stað í skólastofunni. Hvalaveislur eru alfarið í höndum umsjónarkennara. Ekki er gert ráð fyrir að þær séu kostnaðarsamar fyrir nemendur.
Mikilvægt er að reglur séu sýnilegar og því ber starfsfólk ábyrgð á að koma þeim fyrir á réttum stöðum. Æskilegt er að kennarar hengi upp reglur í stofum áður en kennsla hefst að hausti og sjái um að endurnýja eða færa þær til eftir þörfum.
Árlega fer fram svokallaður ,,ofurhvalaleikur“ sem stendur yfir í tvær vikur í senn eða tíu skóladaga. Nöfn tveggja starfsmanna við skólann eru dregin á hverjum degi og þeim afhentir 10 sérstakir hvalamiðar sem þeir eiga að koma út þann daginn. Hengt er upp veggspjald með hundrað reitum í upphafi leiksins og fyrirfram er ákveðið hvaða tíu númer vinna. Þeir nemendur sem eru svo heppnir að fá ofurhval draga númer hjá ritara, sem sér um að hengja þeirra miða á réttan stað og skrá niður nafn og númer nemenda í sérstaka bók. Einnig sér ritari um að senda tilkynningu heim til nemenda og láta foreldra vita að barnið þeirra hafi fengið ofurhval fyrir góða hegðun í skólanum. Í lok leiksins tilkynnir skólastjóri hvaða númeraröð ber sigur úr býtum og heldur sérstaka hvalaveislu fyrir þann hóp nemenda.