Grunnþættir menntunar
Í aðalnámskrá grunnskóla 2011 eru settir fram sex grunnþættir menntunar; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir sem tengjast allir innbyrðis og eru jafnframt háðir hver öðrum eiga samkvæmt aðalnámskrá að endurspeglast í daglegu skólastarfi og vera sýnilegir í skólanámskrá hvers skóla.
Læsi
Meginmarkmið læsis er að nemendur verði virkir þátttakendur í samfélaginu með því að túlka og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra margvíslegu miðla sem völ er á.
Stuðla skal að því að nemendur nái góðu valdi á lestri og ritun texta. Nemendur skilji myndmál og geti nýtt sér það við almenna upplýsingaöflun. Nemendur séu talnalæsir og geti lesið úr töflum og tölum við ýmsar aðstæður. Áhersla skal lögð á að nemendur verði samskiptalæsir og geti unnið í hópum, komið skoðunum sínum á framfæri og hlustað á skoðanir annarra. Nemendur séu upplýsingalæsir og geti aflað sér upplýsinga á margvíslegum hátt, vegið þær og metið með gagnrýnum hætti. Þar sem umhverfi okkar mótast æ meir af vísindum og tækni þarf að efla vísindalæsi meðal nemenda þannig að þeir geti tekið þátt í rökræðum um vísindaleg málefni. Ennfremur skal leggja áherslu á tilfinningalæsi nemenda, að nemendur geti lesið í aðstæður og geti sett sig í spor annarra.
Sjálfbærni
Meginmarkmið sjálfbærnimenntunar er að gera nemendur ábyrga um að skapa samábyrgt samfélag og takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags.
Stuðla skal að aukinni umhverfisvitund með því að efla þekkingu og skilning á samspili náttúru, umhverfis og mannlífs. Nemendur geri sér grein fyrir eigin áhrifum á náttúruna og temji sér lífsvenjur sem stuðli að heilbrigði jarðar og jarðarbúa.
Lýðræði og mannréttindi
Meginmarkmið lýðræðis- og mannréttindamenntunar er að undirbúa nemendur undir þátttöku í lýðræðissamfélagi.
Stuðla skal að því að efla gagnrýna hugsun og ígrundun um gildi þess að vera virkur þátttakandi í lýðræðissamfélagi. Áhersla er lögð á að hversdagslegir starfshættir í skólanum séu byggðir á lýðræði og virðingu fyrir manngildi hvers og eins. Nemendur þekki grundvallarréttindi barna og fullorðinna með hliðsjón af íslenskri löggjöf og alþjóðasamningum. Ennfremur er lögð áhersla á virkt samstarf bæði innan skólasamfélagsins og við grenndarsamfélagið, þar á meðal æskulýðs- og íþróttafélög. Kurteisi, ábyrgð og samvinna eru einkunnarorð Hvaleyrarskóla og eiga þau að vera okkur leiðarljós alla daga.
Heilbrigði og velferð
Meginmarkmið menntunar um heilbrigði og velferð er að stuðla að heilsueflingu og velfarnaði nemenda, einkum andlegri, líkamlegri, tilfinningalegri og félagslegri vellíðan þeirra.
Stuðla skal að jákvæðum skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði nemenda á sem víðtækastan hátt. Lögð er áhersla á að nemendur fái markvisst hreyfiuppeldi og fræðslu sem stuðlar að heilsusamlegu fæðuvali. Áhersla er einnig lögð á að nemendur fái hollan og fjölbreyttan mat og nægan tíma til að nærast. Ennfremur að nemendur fái fræðslu og stuðning sem stuðli að því að þeir geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði. Hvaleyrarskóli hefur innleitt verkefnið Heilsueflandi grunnskólar.
Jafnrétti
Meginmarkmið jafnréttismenntunar er að veita öllum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sín og lifa ábyrgu og skapandi lífi í frjálsu og víðsýnu samfélagi í anda skilnings, umburðarlyndis og jafnræðis.
Stuðla skal að því að allir taki virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Hvaleyrarskóli er skóli margbreytileikans og er lögð áhersla á að hver og einn nemandi fái að njóta sín miðað við eigin þroska, sérstöðu, þarfir, áhuga og styrkleika. Efla skal skilning nemenda á stöðu kynjanna í nútíma samfélagi og búa nemendur jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, hvort heldur sem er í einkalífi, fjölskyldulífi eða atvinnulífi. Í öllu skólastarfi skal leggja áhersla á umburðarlyndi og víðsýni gagnvart fjölbreytileika mannlífsins s.s. ólíkri menningu, þjóðerni, trúarbrögðum, lífsskoðunum, kynhneigð og fötlun.
Sköpun
Meginmarkmið sköpunar í skólastarfi er að örva ímyndunarafl nemenda til að gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en þeir hafa áður gert og miðla til annarra.
Stuðla skal að sköpun í öllu starfi og öllum námsgreinum sem byggir á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika. Nemendur skulu fá tækifæri til að vera skapandi og njóta sköpunarhæfni sinnar sem víðast í skólastarfinu þar sem áhersla er lögð á sköpunarferlið sjálft ekki síður en afrakstur sköpunarinnar. Áhersla er ennfremur lögð á að sköpun sem byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit sé einkennandi fyrir vinnubrögð á flestum sviðum skólastarfsins.