Þemadagar - Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

23.3.2021

Við viljum minna á að það fara í hönd þemadagar hjá okkur í Hvaleyrarskóla. Þemadagarnir standa frá miðvikudeginum 24. mars til föstudagsins 26. mars. Að þessu sinni komum við til með að vinna út frá Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Búið er að skipta köflum Barnasáttmálans á milli stiga í skólanum. Þess má geta að Hafnarfjarðarbær stefnir nú að því að verða formlega viðurkennt sem barnvænt sveitarfélag af UNICEF á Íslandi og barna- og félagsmálaráðuneytinu.

Við leggjum áherslu á að nemendur hafi gaman af uppbroti kennslunnar og njóti öðruvísi skóladaga.

Skóladagurinn hefst kl. 8:20 og lýkur 13:20 miðvikudag og fimmtudag. Í fyrstu tveimur kennslustundunum verður um hefðbundna kennslu að ræða en síðan tekur þemavinna við til kl. 13:20. Á föstudaginn er um að ræða skertan skóladag og verður kennsla frá kl. 8:20 til hádegis. Þeir nemendur sem skráðir eru í Holtasel fara þangað strax að loknum skóladegi.

Vegna aðstæðna þá getum við því miður ekki haft opið hús á föstudaginn, eins og við hefðum gjarnan viljað til að skoða afrakstur daganna. Þess í stað munum við senda út Hvalrekann okkar í lok vikunnar sem verður uppfullur af myndum af vinnunni undanfarna daga.

Um Barnasáttmálann

  • Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.
  • Í 1. - 41. gr. Barnasáttmálans er fjallað efnislega um réttindi barna. Flokka má réttindi barna í þrennt; vernd, umönnun og þátttöku.

Við viljum líka benda ykkur á að Krakka-RÚV hefur unnið þættina HM30 þar sem þau Dídí og Aron fjalla um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þar taka þau fyrir eitt markmið í hverjum þætti.

Með bestu kveðjum,
stjórnendur og starfsfólk Hvaleyrarskóla.


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is