Stöðumat verður í lok janúar eða í byrjun febrúar 2021

27.1.2021

Eins og kemur fram í skóladagatalinu fyrir þetta skólaár þá eru námsviðtöl ráðgerð þriðjudaginn 2. febrúar. Foreldrar verða boðaðir á fjarfundi í kringum þann tíma með svipuðu sniði og var í október.

Fyrir fundina þurfa foreldrar ásamt börnum sínum, að skoða námsframvinduna inni á Mentor. Athygli er vakin á því að hæfnikortið er lifandi plagg og því getur síðasta mæling ekki alltaf gefið rétta mynd. Sum hæfniviðmið eru metin oftar en einu sinni en það á frekar við eftir því sem börnin verða eldri. Þegar svo er þarf að skoða hæfniviðmiðið í Mentor og þá kemur upp saga/námsferill, þ.e. hvaða hæfni barnið hefur náð frá því skólinn hófst. Gott er að skoða það til að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu.

Nú í janúar er gefin einkunn fyrir framvindu, sem ætluð er til að gefa foreldrum nemenda nokkra hugmynd um stöðu barnsins í hverri grein. Einkunnin lýsir stöðu barnsins í janúar 2021 en hún birtist efst á hæfnikorti nemandans í hverju fagi. Hæfnikortið opnar á mánudaginn 25. janúar. Til að gefa fyrir framvinduna notum við skalann; góð framvinda, hæg framvinda, í hættu að ná ekki lágmarkshæfni. Vegna þeirrar skerðingar á skólastarfi sem var í haust er ekki hægt að gefa einkunn fyrir framvindu í öllum fögum.

Hér má nálgast leiðbeiningaglærur fyrir foreldra til að skoða námsmat barna sinna.

Í ljósi aðstæðna og sóttvarnarreglna er ekki leyfilegt að stefna foreldrum í skólann þann 2. febrúar. Þess vegna koma námsviðtölin til með að eiga sér stað undir öðrum kringumstæðum eins og áður segir. Til að létta á þessum degi munu einhver viðtalanna fara fram dagana á undan. Þá horfum við til þess að nýta Google Meet sem nemendur hafa verið að nota til samskipta í kennslu og er appið uppsett á spjaldtölvum nemenda í 6. - 10. bekk.

Ef þið hafið einhverjar óskir fram að færa eða athugasemdir, þá er ykkur velkomið að koma þeim á framfæri við okkur með símtali eða tölvupósti. Við munum koma þeim skilaboðum áleiðis til umsjónarkennara barnanna.


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is