Lestur á aðventu
Mánudaginn 29. nóv. hefst tveggja vikna lestrarsprettur í mið- og unglingadeild. Allir nemendur fá hefti þar sem þeir eiga að skrá lesturinn og líma inn bingóspjald sem þeir draga hjá kennara.
Nemendur eiga að lesa 20 mínútur á skólatíma og kennari kvittar fyrir lesturinn. Umsjónarkennarar í miðdeild ákveða hvenær þeir hafa lestrarstundina en í unglingadeild er búið að skipuleggja ákveðna tíma þar sem lesturinn fer fram. Auk þess að lesa í skólanum er ætlast til að nemendur lesi a.m.k. 20 mínútur heima alla virka daga, því fleiri mínútur því betra. Mikilvægt er að foreldrar kvitti fyrir heimalesturinn svo hann sé tekinn gildur þegar nemendur safna lestrarmínútum.
Steinar deildarstjóri hefur tekið að sér að vera bingóstjóri og í hverjum lestrartíma birta kennarar tölur dagsins sem búið er að senda til þeirra í tölvupósti. Í fyrri vikunni munu verða dregnar út þrjár tölur á dag en tvær tölur í seinni vikunni. Við munum spila allt spjaldið. Sá sem fyrstur verður til að frá bingó í hvorri deild, vinnur ísveislu fyrir bekkinn sem haldin verður í síðustu vikunni fyrir jól.
Þegar nemandi hefur lesið 200 blaðsíður fær hann miða, þar sem hann skrifar nafnið sitt og setur í kassa sem komið verður fyrir á gangi hvorrar deildar. Nemandinn þarf að vera með kvittun fyrir þessum blaðsíðum til að geta farið í pottinn. Ef lesnar eru aðrar 200 blaðsíður getur nemandinn sett nafnið sitt aftur í pottinn. Vinningshafar verða dregnir út í síðustu vikunni fyrir jól.
Við stefnum síðan á að hafa uppskeruferð í Hellisgerði eftir lestrarsprettinn þar sem nemendur fá kakó og piparkökur.