Fyrirkomulag skólastarfs í Hvaleyrarskóla næstu þrjár vikur
Til foreldra í Hvaleyrarskóla
16. mars 2020.
Ágætu foreldrar,
Skólastjórnendur hafa síðustu daga unnið að skipulagi skólastarfs vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í okkar samfélagi. Starfsfólk vinnur í dag að útfærslum í sínum árgöngum og faggreinum.
Skipulagið er nokkuð miðlægt það er að viðvera nemenda er um það bil eins í öllum grunnskólum bæjarins en með smá breytingum eftir aðstæðum í hverjum skóla.
Hvaleyrarskóla er skipt niður í 6 hólf, starfsfólk og nemendur mega ekki fara á milli hólfa. Þá má enginn utanaðkomandi fara inn í skólann eða á ákveðin svæði. Þetta á líka við um foreldrar sem mega ekki koma inn í skólann. Í Hvaleyrarskóla eiga nemendur að mæta í skólann við þann inngang sem tilheyrir þeirra svæði. Nemendur mæta í sínar heimastofur til umsjónarkennara sem hér segir:
Hólf 1, inngangur elstu deildar:
- 8. bekkur kl. 10:00 - 11:00
- 9. bekkur kl. 10:10 - 11:10
- 10. bekkur kl. 10:20 – 11:20
Hólf 2, inngangur miðdeildar:
- 5. bekkur kl. 8:20 - 9:20
- 6. bekkur kl. 8:30 - 9:30
- 7. bekkur kl. 8:40 - 9:40
Hólf 3, inngangur á neðri hæð sem er nær miðdeildinni:
- 3. bekkur kl. 11:20 - 13:20
- 4. bekkur kl. 11:30 - 13:30
Hólf 4, inngangur á neðri hæð sem er nær göngustíg við hlið skólans:
- 1. bekkur kl. 11:20 - 13:20 þá tekur Holtasel við fyrir þá nemendur sem þar eru skráðir og er til kl. 15:00
- 2. bekkur kl. 11:30 - 13:30 þá tekur Holtasel við fyrir þá nemendur sem þar eru skráðir og er til kl. 15:00
Hólf 5 – Bjarg, inngangur í kennslustofu Bjargs:
- 1. – 10. bekkur kl. 9:30 – 11:40. Nemendur Bjargs fara ekki í Holtasel.
Nemendur eiga ekki að koma í skólann fyrr en um það leyti sem kennsla hefst en öll kennsla fer fram í sömu stofunni með sama kennaranum og starfsfólki. Kennslustofur verða opnar þegar nemendur koma í skólann og eiga nemendur að fara beint inn í sína umsjónarstofu. Nemendur eiga ekki að koma með nesti í skólann þess í stað munu allir fá nesti/mat í skólanum í samræmi við viðverutíma sinn. Nemendur og starfsfólk mun matast í kennslustofunni. Þá munu þeir nemendur í 1. og 2. bekk sem eru skráðir í Holtasel vera áfram í sinni heimastofu og starfsmaður Holtasels kemur í stað kennarans kl. 13:20 til klukkan 15:00.
Við viljum minna foreldra á að tilkynna veikindi og leyfi eins og venjulega í Mentor, reynum að lágmarka hringingar í skólann. Alltaf skal velja skráningu fyrir heilan dag. Ef um langtímaveikindi er að ræða biðjum við foreldra um að tilkynna það sérstaklega til skólans með tölvupósti á stjórnendur.
Foreldrar og nemendur verða að fylgjast vel með vikuáætlun inni á Mentor en þar munu kennarar koma skilaboðum til nemenda um það nám sem fram fer næstu vikurnar. Nemendur í 5. – 10. bekk nota Ipadinn og þurfa í sumum tilfellum að nota Google classroom til að vinna verkefni og skila til kennara, ásamt því að kennari setur þar inn skilaboð til nemenda. Þetta á við í þeim árgöngum sem eru vanir að vinna í því umhverfi en sérstaklega á elsta stiginu.
Við hvetjum foreldra til að láta börnin sín nýta tímann vel við það nám sem sett er á Mentor og einnig minnum við á að allir nemendur frá 1. – 10. bekk eiga að lesa minnst 15 – 20 mínútur á dag.
Við væntum eins og áður að gott samstarf verði á milli heimilis og skóla í þessum fordæmalausu aðstæðum. Þá minnum við á að börnin okkar þurfa á virkni og skipulagi að halda í þessum sérstöku aðstæðum.
Með góðum kveðjum,
Stjórnendur, kennarar og starfsfólk Hvaleyrarskóla.