Breytt skipulag skólastarfs

Mánudaginn 16. mars verður skipulagsdagur í grunnskólunum

15.3.2020

Til foreldra nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Óvæntar aðstæður í samfélaginu kalla á breytt skipulag grunnskólastarfs, sem mun taka talsverðum breytingum í því samkomubanni sem lagt hefur verið á og tekur gildi frá miðnætti í kvöld. Óhjákvæmilega felur það í sér að skólastarf getur ekki verið með sama hætti og áður og ný framkvæmd á skólastarfinu tekur tímabundið við frá þriðjudeginum 17. mars. Mánudaginn 16. mars verður skipulagsdagur í grunnskólunum og aðeins starfsfólk mætir i skóla. Síðdegis þann dag mun hver skóli senda foreldrum nánari upplýsingar um framkvæmd skólastarfsins frá þriðjudeginum.

Skólastjórnendur í grunnskólum Hafnarfjarðar hafa fengið nákvæma vinnuáætlun um þá framkvæmd sem tekur gildi á morgun – sem er sérstök fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar og gildir því eins fyrir alla skólana og starfsmenn þeirra innan bæjarins. Sú áætlun byggir á sameiginlegri yfirlýsingu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem skrifstofa mennta- og lýðsheilsusviðs Hafnarfjarðar tók þátt í að móta nú um helgina. Í vinnuáætluninni er reynt að hafa sem nákvæmastar útlistanir á framkvæmd skólastarfsins í samkomubanni þar sem reynt er að svara sem flestum óvissuþáttum. Ekki er heimilt að breyta þeim grunnviðmiðum sem þar eru. Aðeins er hægt að aðlaga áætlunina innan hvers skóla út frá aðstæðum. Starfsfólk skóla vinnur að útfærslunni á morgun, mánudag, og fyrir lok skipulagsdagsins munu foreldrar fá frá hverjum skóla hvernig þessi útfærsla verður fyrir sitt/sín barn/börn. Nokkur atriði getum við nefnt strax um það sem mun gerast í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar:

  • Hver nemandi mun vera í einum hópi (bekk) í einni stofu og mun ekki fara á milli stofa eða blandast við aðra bekki/hópa. Öll kennsla í verk- og listgreinastofum fellur niður – en mögulega gætu þær stofur í einhverjum tilvikum verið notaðar fyrir einn ákveðinn hóp. Formlegri þrótta- og sundkennslu verður hætt í íþróttasölum/-mannvirkjum. Nemendur blandast ekki og skólunum skipt í svokölluð sóttvarnarhólf.
  • Allir nemendur verða með skerta stundaskrá, mismikla þó eftir aldri nemenda, og áhersla auk þess á heimanám, meira hjá eldri nemendum en yngri.
  • Frístundaheimili mun starfa fyrir þá nemendur í 1.-2. bekk sem þar eru nú þegar skráðir en það verður einnig með skerta starfsemi.
  • Matsalur skólans mun loka og nemendur mega ekki koma með nesti með sér í skólann. Allir munu fá mat/nesti í skóla í samræmi við viðverutíma sinn og matast í kennslustofum.

Foreldrar tilkynna um veikindi og leyfi eins og venjulega er og skrá það sjálfir í Mentor. Alltaf skal velja skráningu fyrir heilan dag og því ekki einstaka tíma innan hvers dags. Ef í einhverjum tilvikum er um langtímaveikindi að ræða sem eru ljós í dag, vegna sérstakra aðstæðna hjá barni, skal það tilkynnt sérstaklega til skóla með tölvupósti.

Sömuleiðis eru foreldrar beðnir að virða það að koma ekki inn í skólabygginguna meðan á samkomubanni stendur.

Markmiðið með öllum þessum aðgerðum sem munu koma til framkvæmda í grunnskólum Hafnarfjarðar er að tryggja sem mest öryggi gagnvart mögulegu smiti.

Við þökkum ykkur fyrirfram fyrir skilning á þessum fordæmalausu aðstæðum sem kalla á þessa framkvæmd og væntum góðs samstarfs milli skóla og heimilis við þessar sérstöku aðstæður. Börn þurfa virkni og skipulag í aðstæðum sem þesssum.

Hafnarfirði 15. mars 2020.

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar°


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is