Áhrif breyttra reglna um sóttkví á skólastarf
Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingar á reglum um sóttkví og smitgát sem taka gildi frá og með miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 25. janúar. Breytingarnar hafa ekki áhrif á reglugerð nr. 6/2022 um takmörkun á skólastarfi sem gildir áfram, til og með miðvikudagsins 2. febrúar nk.
Frá og með miðnætti gilda eftirfarandi reglur um sóttkví og smitgát í tengslum við skólastarf:
Leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf
Börn á leik- og grunnskólaaldri, fædd 2006 og síðar, sem hafa orðið útsett fyrir COVID-19 sýkingu utan heimilis, t.d. í skólastarfi eða íþrótta- eða frístundastarfi, þurfa hvorki að fara í sóttkví né smitgát. Hafi þau hins vegar dvalið eða dvelja með einstaklingi í einangrun á heimili sínu þurfa þau að fara í sóttkví. Sóttkví vegna smitaðs einstaklings á heimili verður því áfram í gildi.
Fullorðnir sem verða útsettir fyrir smiti utan heimilis, t.d. í skólastarfi, fara í smitgát. Í því felst að viðkomandi ber grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að halda 2 metra fjarlægð, hvort heldur er úti eða inni og forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga ef þeir smitast af COVID-19. Smitgát varir í 5 daga og ekki þarf lengur í sýnatöku til þess að losna úr smitgát.
Í gegnum faraldurinn hefur verklag við smitrakningu verið þannig að þegar smit hefur komið upp í skólastarfi þá hafa foreldrar/forráðamenn verið upplýstir um slíkt. Með þeirri breytingu sem tekur gildi nú þá breytist það, þar sem ekki verður lengur þörf á rakningu innan skóla og tilkynna foreldrar/forráðamenn einungis um veikindi barna.
Nánar um áhrifin á skólastarf má sjá hér:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/01/25/Ahrif-breyttra-reglna-um-sottkvi-a-skolastarf/