Skólinn
Hvaleyrarskóli tók til starfa haustið 1990 og var yngsti grunnskólinn í Hafnarfirði þar til árið 2001. Skólabyggingin hefur verið reist í áföngum og er á einni hæð nema síðasti áfanginn sem tekinn var í notkun haustið 2004. Sá áfangi er á tveimur hæðum vegna halla lóðarinnar.
Skólahúsnæðið er bjart og fagurt og hátt er til lofts. Ormar Þór Guðmundsson og Örnólfur Hall teiknuðu skólann. Hvaleyrarskóli var valinn í bók sem heitir Schools for today and tomorrow ásamt þremur skólum öðrum fyrir Íslands hönd, en í formála þessarar bókar segir: "Bók þessi inniheldur sýnishorn af best hönnuðu skólum í heimi í dag. Þeir hafa verið valdir af alþjóðanefnd sem valin var af OECD til þess að taka út byggingar sem hýsa menntastofnanir. Skólarnir endurspegla margar af þeim bestu hugmyndum sem hafa vaknað eftir vinnu þessarar alþjóðanefndar (PEB) síðustu fimm árin".
Í skólanum eru tuttugu og ein almenn kennslustofa. Þar er einnig myndmennta-, smíða-, textíl-, heimilisfræði-, raungreina-, tölvu-, tónmennta- og sérkennslustofur. Í skólanum er einnig fyrirlestrarsalur og hátíðarsalur þar sem nemendur borða í hádeginu. Bókasafn er í skólanum og aðstaða fyrir heilsugæslu. Skólalóðin er gróðri prýdd, falleg og vel hönnuð og nýtist vel til leikja. Byggingaframkvæmdir hafa haldist í hönd við fjölgun nemenda í skólanum. Fyrsta árið voru eitthundrað og fjörutíu nemendur í níu bekkjardeildum í fyrsta til fimmta bekk. Í dag eru um 450 nemendur í skólanum og starfsmenn liðlega 60.
Skólahúsnæðið er nýtt til ýmissa annarra hluta en til hefðbundins skólastarfs. Félagsmiðstöðin Verið starfar í skólanum yfir veturinn og er mikil lyftistöng fyrir félagslíf nemenda. Á sumrin eru haldin námskeið fyrir börn í skólanum á vegum Versins og ÍTH.
Hvaleyrarskóli leggur áherslu á marvissa málörvun en í því felst m.a. að nemendur fá markvissa þjálfun í framsögn og því að tjá skoðanir sínar alla skólagönguna. Ræðupúlt er í öllum kennslustofum til að styðja það starf. Hvaleyrarskóli leggur áherslu á heilsurækt og að bjóða upp á fjölbreytt list- og verknám. Hvaleyrarskóli er SMT skóli en í því felst að við leggjum áherslu á að styrkja jákvæða hegðun nemenda, efla og bæta samskipti innan skólans.
Skólaárið 1995-1996 útskrifuðust fyrstu nemendurnir frá Hvaleyrarskóla. Skólinn var þá orðinn heildstæður grunnskóli með nemendur í 1.-10. bekk. Árið 2004 var Hvaleyrarskóli einsetinn í fyrsta skipti og var þar með síðasti grunnskóli landsins til þess að verða einsetinn. Árið 2010 var haldið upp á 20 ára afmæli skólans með pompi og prakt og var þessi mynd tekin við það tækifæri.