Nemendaskápar

Nemendur í unglingadeild Hvaleyrarskóla geta fengið læstan geymsluskáp til afnota. Skáparnir eru fyrst og fremst ætlaðir til þess að geyma skólabækur og námsgögn, sem ekki er verið að nota hverju sinni.
 
Í upphafi vetrar eru allir skápar hreinir og yfirfarnir. Skáparnir eru númeraðir og fá nemendur lykil að
tilteknum skáp til afnota. Í sumum tilvikum verða nemendur að deila skáp með öðrum. Nemendur mega ekki undir neinum kringumstæðum lána lykil sinn.
 
Nemendur greiða 2.000 krónur í leigu og fá þá lykil afhentan. Ef skáp og lykli er skilað að vori í sama ásigkomulagi og að hausti fær nemandinn endurgreiddar 1.000 krónur. Nemendur og foreldrar undirrita tryggingarsamning vegna afnota af skápnum. Ef endurnýja þarf lás eða láta smíða nýjan lykil getur nemandi greitt 500/1.000 krónur til kaupa á nýjum lykli og/eða lás eða að endurgreiðslan lækki um sömu upphæð. Ef nemandi missir rétt sinn til skápanotkunar vegna slæmrar umgengni (veggjakrot, rispur, sóðaskapur) – þá er ekki um neina endurgreiðslu að ræða. Tryggingarfjárhæð rennur til viðgerðar á skápnum.
 
Nemendum ber að skila lyklunum að vori áður en skóla lýkur. Nemendur eiga ekki að geyma verðmæti s.s. farsíma og peninga í skápunum. Skólinn ábyrgist ekki verðmæti sem kunna að tapast í skólanum. Ef nemendur verða uppvísir að skemmdum á nemendaskápum verða þeir (og foreldrar) krafðir um greiðslur vegna tjónsins.
 
Ef nemendur verða varir við að unnar hafa verið skemmdir á skápnum þeirra eru þeir ábyrgir fyrir því að tilkynna það strax til ritara.
 
Skólinn áskilur sér rétt til leitar í nemendaskápum ef nauðsyn krefur s.s. ef grunur leikur á að öryggi nemenda sé í húfi eða að ólögmætir hlutir leynist í nemendaskáp.
 
MUNIÐ – Skáparnir eiga ávallt að vera lokaðir og læstir þegar eigandi er ekki nærri.


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is