Heimanámsstefna Hvaleyrarskóla
Heimanám byggir á samstarfi milli heimila og skóla. Það er mjög mikilvægt að foreldrar sýni námi barna sinna áhuga og aðstoði þau við heimanámið sitt. Það getur skipt sköpum í náminu. Markmiðið með heimanáminu í Hvaleyrarskóla er að nemendur temji sér sjálfsaga, læri að vinna upp á eigin spýtur og séu þannig vel undirbúnir undir kennslustundir sem framundan eru. Að sama skapi er þetta kjörið tækifæri fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna.
Heimanám þarf að taka mið af þroska og aðstæðum hvers nemanda og heimanámið má ekki vera íþyngjandi og valda nemandanum kvíða. Hafa þarf í huga að heimanámsverkefni séu fyrir alla, lengd þeirra og erfiðleikastig séu raunhæf þannig að nemendur geti unnið þau nokkuð sjálfstætt.
Yngsta stig 1. og 2. bekkur
- Aðaláhersla er á lestrarþjálfun.
- Nemendur lesa upphátt heima að lágmarki 5 sinnum í viku fimmtán mínútur í senn og skrifa u.þ.b. 5 orð upp úr textanum.
- Foreldrar skrá lesturinn og fjölda skrifaðra orða í lestrarhefti.
- Kennari ber ábyrgð á að nemendur séu ávallt með lestrarbækur sem hæfa stöðu þeirra í lestri og fylgir heimalestri eftir.
- Mikið kapp er lagt á forskrift en með því æfa nemendur sig í því að draga rétt til stafs.
- Inn á milli fara auðveld verkefni heim tengd ritun eða stærðfræði.
- Nemendur lesa upphátt heima að lágmarki 5 sinnum í viku fimmtán mínútur í senn og skrifa u.þ.b. 8-10 orð upp úr textanum eða 4-5 setningar.
- Foreldrar skrá lesturinn og fjölda skrifaðra orða í lestrarhefti.
- Kennari ber ábyrgð á að nemendur séu ávallt með lestrarbækur sem hæfa stöðu þeirra í lestri og fylgir heimalestri eftir.
- Þar að auki fá nemendur heimanám einu sinni í viku og skila viku síðar. Heimaverkefni endurspegla þau viðfangsefni sem nemendur vinna að í skólanum og eru hugsuð til frekari þjálfunar á því sem nemendur hafa áður lært. Gera þarf ráð fyrir mismunandi vinnsluhraða og námslegri stöðu nemenda við skipulagningu. Í samráði við foreldra er mögulegt að senda óunnin skólaverkefni heim með nemendum sem heimavinnu.
- Nemendur lesa heima ákveðinn mínútufjölda á viku upphátt og/eða í hljóði. Foreldrar kvitta fyrir lestrinum og kennari fylgir heimalestri eftir.
- Námi nemenda er skipt niður í áætlanir fyrir eina viku í senn. Áætlunin er aðgengileg nemendum og foreldrum á Mentor.
- Með markvissri og góðri vinnu í kennslustundum ættu nemendur að geta unnið stærstan hluta sinnar vinnu í skólanum. Það sem eftir stendur þarf að vinna heima.
- Áætlanir þurfa að miðast við námslega stöðu og því eru ekki allir nemendur með sömu áætlun.
- Þar að auki geta kennarar sent tilfallandi verkefni heim með nemendum til frekari þjálfunar og/eða í tengslum við ákveðin verkefni. Mikilvægt er að slík verkefni séu send heim með góðum fyrirvara til að gefa nemendum færi á að skipuleggja sig t.d. m.t.t. íþrótta og tómstundastarfs.
Elsta stig (8.-10. bekkur)
- Nemendur lesa heima að lágmarki sex blaðsíður á dag upphátt og/eða í hljóði. Foreldrar kvitta í hverri viku fyrir lesnar blaðsíður á lestrarmiða sem er í sérstakri lestrardagbók. Nemendur skrifa í hverri viku færslur í lestrardagbók tengdar efni bókarinnar. Lestrardagbók eiga nemendur að skila til íslenskukennara á tveggja vikna fresti. Heimalestur er hluti af lokaeinkunn nemenda í íslensku.
- Námi nemenda er skipt niður í áætlanir fyrir eina viku í senn. Með markvissri og góðri vinnu í kennslustundum ættu nemendur að geta unnið sína vinnu að mestu í skólanum. Það sem eftir stendur þarf að vinna heima, auk þess sem nemendur geta þurft að lesa heima fyrir ákveðin fög og undirbúa sig fyrir kennslustundir. Kennarar geta þar að auki lagt fyrir önnur verkefni sem nemendur þurfa að hluta til eða öllu leyti að vinna heima, líkt og ritgerðir eða kynningar. Áhersla er lögð á að slík verkefni séu send heim með góðum fyrirvara til að gefa nemendum færi á að skipuleggja sig t.d. m.t.t. íþrótta- og tómstundastarfs.
- Áætlanir og verklýsingar eru aðgengilegar nemendum og foreldrum á Mentor.