Hefðir og félagslíf

Yngsta deild

Í yngstu deild er hefð fyrir nokkrum skemmtunum á skólaárinu. Jólaskemmtun fer þannig fram að síðasta dag fyrir jólafrí flytur fimmti bekkur helgileik á sal skólans. Sama dag er dansað í kring um jólatréð og hver bekkur heldur stofujól með umsjónarkennara í heimastofu. Þá opna nemendur jólakort frá bekkjarfélögum og vinum, stundum skiptast nemendur á litlum gjöfum, þeir hlýða á jólasögu og gæða sér á smákökum að heiman.

Svokölluð 100 daga hátíð er að skapa sér hefð við skólann. Hún gengur út á það að nemendur telja daga í skóla og þegar 100 dagar eru liðnir af skólaárinu er haldin hátíð. Meðan á talningu stendur nýta kennarar sér tækifærið og fjalla um tugi, einingar og hundruð með ýmsum hætti.

Vorhátíð hefur verið haldin í yngri deild undanfarin ár. Þá er grillveisla haldin á skólalóðinni og farið í ýmsa leiki. Sem dæmi má nefna; ýmsa boltaleiki, pokahlaup, dósakast, snú snú og teygjutvist, auk þess er boðið upp á andlitsmálun.

Hátíðin ,,Bjartir dagar” er haldin í Hafnarfirði ár hvert. Þá streyma 4. bekkingar allra grunnskóla í Hafnarfirði niður á Thorsplan merktir sínum skóla og taka þátt í skemmtidagskrá.

Á vordögum er hefð fyrir því að nemendur fari í vorferðir með umsjónarkennurum sínum.

Miðdeild

Viðmiðunarreglan er sú að bekkjarkvöld eru haldin tvisvar yfir skólaárið, þ.e. einu sinni á hvorri önn. Fyrra bekkjarkvöldið er haldið í tengslum við einn af aðal viðburðum skólaársins í miðdeild; Hæfileikakeppni miðdeildar, en hún er haldin ár hvert. Umsjónarkennari hvers bekkjar kynnir keppnina í sínum bekk og hvetur nemendur til þátttöku. Hann útvegar dómnefnd sem nemendur í unglingadeild skipa og heldur bekkjarkvöld þar sem bekkurinn keppir innbyrðis um atriði. Vinningsatriðið keppir fyrir hönd bekkjarins á hæfileikakeppni miðdeildar. Hæfileikakeppnin fer fram á jólaskemmtun miðdeildar og sér deildarstjóri um skipulagningu.

Jólaskemmtun miðdeildar er haldin seinni hluta dags stuttu fyrir jólafrí. Þá fer fram hæfileikakeppni miðdeildar. Veitt eru vegleg verðlaun fyrir 1. til 3. sæti. Dómnefnd skipa gjarnan fulltrúar úr nemendaráði skólans, fulltrúi skólastjórnenda og fulltrúi frá félagsmiðstöðinni Verinu.

Sú hefð hefur skapast að 5. bekkir æfa upp og sýna helgileik á sal skólans fyrir jólin. Kallað er eftir framboðum úr báðum bekkjardeildum og valið er í hlutverk. Auk þess hefur skólakórinn sungið. Æfingar fara fram að hluta til á skólatíma en að hluta utan skóla. Helgileikurinn er sýndur fyrir yngri- og miðdeild.

Síðasta dag fyrir jólafrí koma nemendur saman á sal skólans og horfa á helgileik sem 5. bekkingar sjá um og halda eftir það stofujól með umsjónarkennara í sinni heimastofu þar sem skipst er á jólakortum, hlýtt á jólasögu og borðað góðgæti að heiman. Oft hafa nemendur komið með litla gjöf að heiman í vikunni fyrir
stofujólin sem nemendur skiptast á. 

Nemendur 7. bekkja hafa farið í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði einhvern tímann á skólaárinu. Deildarstjóri sér um að setja sig í samband við staðarhaldara að Reykjum og finna heppilega tímasetningu í samstarfi við umsjónarkennara 7. bekkja.

Árshátíð miðdeildar er afar vegleg. Deildarstjóri hefur umsjón með skipulagningu. Mikið er lagt í dagskrána, aðkeypt skemmtiatriði og DJ eða lifandi tónlist. Nemendum gefst kostur á að kaupa sér pizzu og versla í sjoppu félagsmiðstöðvarinnar og endað er á að dansa fram eftir kvöldi. Hefð er fyrir því að 6. bekkir sjái um skreytingar fyrir hátíðina og 5. bekkir um tiltekt. Umsjónarkennarar eru ábyrgir fyrir nemendum sínum.

Á vordögum fara nemendur miðdeildar í dagsferð með umsjónarkennurum sínum. Árgangar fara saman.

Elsta deild

Fiesta er aðal hátíð nemenda í elstu deild og er haldin sameiginlega af skólanum og félagsmiðstöðinni Verinu.
Hátíðin hefst á mexíkóskum mat og á eftir er haldið sameiginlegt ball með Lækjarskóla. Undanfarin ár hafa þekktar hljómsveitir leikið fyrir dansi. Ballið er opið nemendum úr öðrum skólum en þó að takmörkuðu leyti. 

Haldin eru stofujól í elstu deild næst síðasta dag fyrir jólafrí. Um kvöldið er síðan haldið jólaball. Deildarstjóri og kennarar hafa samráð um skipulag.

Grunnskólahátíð er sameiginlegt ball allra skóla í Hafnarfirði sem eru með elstu deild og félagsmiðstöðva bæjarins.

Árshátíð er haldin í samstarfi við félagsmiðstöðina Verið, að vori og sjá 10.bekkingar um skemmtiatriði.

Ferðir: 8. bekkir hafa farið í dagsferð að vori. 9. bekkir hafa farið í 5 daga í Skólabúðirnar að Laugum og 10. bekkingar í þriggja daga útskriftarferð að vori.


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is