Ástundunarreglur grunnskóla

Frá haustinu 2019 taka við samræmdar reglur um skólasókn, þ.e. um fjarvistir/seinkomur, brottrekstra úr tímum og leyfi/veikindi nemenda, í grunnskólum Hafnarfjarðar. Þær reglur eru kynntar sérstaklega í viðhengi.
Tilgangur þess að samhæfa reglur um skólasókn í grunnskólunum og viðbrögð við þeim er margvíslegur. Í því felst að það sé ekki mismunandi eftir skólum hvernig sé brugðist við minnkandi skólasókn nemenda og það sem stundum er nefnt „skólaforðun“ ef fjarvistir frá skóla stafa ekki af lögmætum ástæðum. Grunnskólanemendur á Íslandi eru skólaskyldir en forsjáraðilar hafa samt alla stjórn á að fá leyfi fyrir börn sín. Forsjáraðilar fá hér mikið frelsi og um leið mikla ábyrgð. Reynslan sýnir að leyfum nemenda fjölgar og starfsfólk skóla sér aukna tilhneigingu til að ekki séu alltaf fullnægjandi ástæður sem liggja til grundvallar. Þess vegna þarf skólasamfélagið í Hafnarfirði að bregðast við með því að samhæfa viðbrögð við aukningu fjarvista í grunnskólanámi.
Góð mæting í skóla er viðamikill þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Að missa ítrekað úr kennslustundir, t.d. í lestri á yngra stigi eða stærðfræði á eldri stigum, getur haft áhrif á námsárangur. Miklar fjarvistir úr skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn eða unglinga og haft þau áhrif á þróun skólaforðunar og versnandi námsárangur þegar þau missa ítrekað úr námi.
Starfsfólk skóla í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist. 

Meginefni reglanna er:

 1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN
  Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.
 2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA
  Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).
 3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA
  Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.
 4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAР
  Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða ( sjá fylgiskjal póstsins ).
 5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ
  Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is