Nám og kennsla
Námsgreinar eru mikilvægur hluti skólastarfs en ekki markmið í sjálfu sér. Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska. Í viðfangsefnum og aðferðum námsgreinanna kynnast nemendur ólíkum sviðum veraldarinnar; heimi hluta og hugmynda, náttúru og menningu. Þeir fræðast um nærumhverfi sitt og fjarlæg heimshorn, kynnast örheimi efnisagna og víðáttum geimsins. Námsgreinar gefa nemendum færi á að kynna sér og ræða siði og lífshætti, þekkingu og hugmyndir, kenningar og staðreyndir, lögmál og reglur sem gefa lífi þeirra og umhverfi merkingu og tilgang. Námsgreinarnar búa einnig yfir mismunandi aðferðum og verklagi, sem nýtast til náms og þroska.