Lög Foreldrafélags Hvaleyrarskóla

1. grein

Félagið heitir Foreldrafélag Hvaleyrarskóla, heimili þess er að Akurholti 1, Hafnarfirði, kennitala félagsins er
521203-4390

2. grein
Félagar eru foreldrar og forráðamenn nemenda í Hvaleyrarskóla.

3. grein
Markmið félagsins eru:

  • að vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í skólanum
  • að hvetja til virkrar þátttöku forelda í skólastarfinu og efla tengsl heimila og skóla
  • að efla og tryggja gott samstarf foreldra, nemenda og starfsfólks skólans
  • að efla velferð nemenda með því að styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði
  • að koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál
  • að hafa góð tengsl við skólastjórnendur, skólaráð, Foreldraráð Hafnarfjarðar og samtökin Heimili og skóli.
  • að standa vörð um réttindi barna til mennta og aukins þroska.
4. grein
Til að ná þessum markmiðum hyggst félagið m.a.:
  • stuðla að auknu samstarfi foreldra og nemenda
  • gefa út fréttabréf foreldra og hafa upplýsingar aðgengilegar á heimasíðu
  • starfa eftir þeim ákvæðum laga og reglugerða sem Alþingi og menntamálaráðuneytið setja um grunnskóla
  • koma með tillögur að endurbótum og þróunarstarfi í samvinnu við skólayfirvöld
  • kynna sér kennsluhætti og uppeldismarkmið skólans til dæmis með starfi í skólaráði og nefndum
  • halda umræðu- og fræðslufundi um uppeldis- og skólamál
  • fjalla um og koma með tillögur um aðstöðu barna í skólahverfinu
  • styðja eftir megni félags- og tómstundastarf nemenda
  • taka þátt í samstarfi foreldrafélaga og samtökum foreldra
  • skipa bekkjarfulltrúa í hverja bekkjardeild og styðja við starf þeirra
  • taka virkan þátt í nefndum og ráðum bæði innan skólans og utan varðandi afmörkuð viðfangsefni.
5. grein

(bekkjarfulltrúar)
Starf félagsins byggist á skipulögðu samstarfi foreldra og forráðamanna nemenda í hverjum bekk. Bekkjarfulltrúar skulu sjá um starf í þágu síns bekkjar í samráði við umsjónarkennara og deildarstjóra.
Í hverjum bekk skulu vera fjórir bekkjarfulltrúar sem kosnir eru í byrjun skólaárs og eigi síðar en á námsefniskynningarfundi skólans. Vilji bekkjarfulltrúar koma á framfæri einhverjum málum er varðar skólann í heild eða hluta hans, skal þeim komið á framfæri við stjórn foreldrafélagsins, sem annast öll slík mál. Störf bekkjarfulltrúa skulu nánar tilgreind í erindisbréfi til þeirra.

6. grein
(deildarformenn)
Stjórn foreldrafélagsins skipar deildarformann eða deildarformann úr röðum bekkjarfulltrúa. Best er að hafa deildarformann í hverri deild, þ.e. yngri deild, miðdeild og unglingadeild. Sé ekki nægu fólki að skipta eru deildarformann færri en þó í það minnsta einn. Störf deildarformanna skulu nánar skilgreind í erindisbréfi til þeirra og verkefnaskiptingu stjórnar og ráða félagsins.

7. grein
(fulltrúaráð)
Innan félagsins skal starfa fulltrúaráð skipað öllum bekkjarfulltrúum allra bekkjadeilda, deildarformönnum, fulltrúum foreldra úr skólaráði ásamt stjórn félagsins. Stjórn foreldrafélagsins skal boða til fulltrúaráðsfunda a.m.k. tvisvar á skólaárinu, og skal sá fyrsti vera snemma að hausti. Störf fulltrúaráðs skulu nánar skilgreind í verkefnaskiptingu stjórnar og ráða félagsins.

8. grein
(skólaráð samkv. 8. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008)
Á aðalfundi félagsins skal kjósa fulltrúa í skólaráð Hvaleyrarskóla. Skal a.m.k.. einn fulltrúi foreldra í Skólaráði vera úr röðum stjórnarmanna foreldrafélagsins. Fulltrúar í skólaráð eru kosnir til tveggja ára í senn, einn á hverjum aðalfundi.

9. grein
(starfsnefndir)
Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að skipa nefndir er starfa að afmörkuðum verkefnum. Stjórnin semur verkáætlun í samráði við þær. Stjórnarmeðlimir skipta með sé eftirliti með störfum nefnda og deilda fulltrúaráðsins. 

10. grein
(stjórn)
Stjórnina skipa 7 forráðamenn nemenda, þar af 2 varamenn og 1 formaður sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Formaður er kosinn sérstaklega, að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum (varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi). Æskilegt er að meðlimir stjórnarinnar láti ekki af störfum allir í einu.

11. grein.
Stjórnarfundir skulu haldnir minnst fimm sinnum á hverju skólaári, þar af tveir fyrir áramót.
Stjórn félagsins skal gefa út starfsáætlun í byrjun skólaárs, þar sem tímasettir eru fundir stjórnar, fulltrúaráðs og almennir félagsfundir, svo og önnur verkefni félagsins.
12. grein.
(aðalfundur)
Aðalfundur skal haldinn í september ár hvert og skal hann boðaður með viku fyrirvara.
Fundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:
1. Skipan fundarstjóra.
2. Skipan fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar síðasta starfsár.
4. Skoðaðir reikningar félagsins lagðir fram.
5. Kosningar
a) formaður félagsins
b) 4 stjórnarmenn
c) 2 varamenn í það minnsta
d) 2 skoðunarmenn til að yfirfara reikninga
e) 2 fulltrúar í skólaráð, (kosið til tveggja ára, einn fulltrúi kosinn árlega)
6. Lagabreytingar (ef fram hafa komið).
7. Árgjald félagsins ákveðið.
8. Önnur mál.

13. grein.
Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst. Árgjald til félagsins skal ákveðið á aðalfundi þess ár hvert. Aðeins skal innheimta eitt félagsgjald á hvert heimili. Bekkjarfulltrúum, deildarformönnum, skólaráði eða nefndum á vegum foreldrafélagsins er óheimilt að skuldbinda félagið fjárhagslega eða koma fram fyrir hönd félagsins án samþykki stjórnar þess.

14. grein.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Tillögur um lagabreytingar skulu tilkynntar í aðalfundarboði og skulu þær lagðar fram skriflega eða á skjá á aðalfundi. Lögum þessum má breyta með einföldum meirihluta atkvæða á aðalfundi. 


Samþykkt á aðalfundi 23. Maí 2013


Hvaleyrarskóli |Akurholti 1, 220 Hafnarfjörður
Sími 565-0200 |Netfang hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is